Aníta á meðal keppenda í Laugardalnum

Aníta Hinriksdóttir og Hlynur Andrésson eru í íslenska liðinu.
Aníta Hinriksdóttir og Hlynur Andrésson eru í íslenska liðinu. Ljósmynd/FRÍ

Norðurlandameistaramótið í víðavangshlaupum fer fram laugardaginn 10. nóvember. Mótið fer fram í Laugardalnum og er rásmarkið við tjaldstæðið. Keppt verður í fjórum flokkum; karla- og kvennaflokki og flokki stúlkna og pilta 19 ára og yngri. 

Alls eru keppendur 92 talsins frá Norðurlandaþjóðunum fimm ásamt Færeyjum. Í íslenska liðinu er hluti af okkar fremsta frjálsíþróttafólki. Þar má helst nefna Anítu Hinriksdóttur sem er meðal fremstu kvenna í 800 metra hlaupi í heiminum og Hlyn Andrésson sem setti meðal annars nýtt Íslandsmet í 10 km hlaupi fyrr á þessu ári. 

Mótið hefst klukkan 12:00 þegar stúlkurnar hefja keppni, þar á eftir hefst keppni pilta klukkan 12:35. Klukkan 13:10 hefst kvennahlaupið og svo loks hlaupa karlarnir klukkan 14:00.

Meðfram Norðurlandamótinu fer fram sveitakeppni hlaupahópa sem hefst klukkan 11:00. Aðgangur er frír  og því hvetjum við fólk til að mæta og styðja íslensku keppendurna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert