„Ég er gamla brýnið“

Birna Baldursdóttir.
Birna Baldursdóttir. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Birna Baldursdóttir er búin að eiga magnaðan íþróttaferil, bæði sem íshokkíleikmaður og blakari. Hún var landsliðsmaður í báðum greinum og hefur margoft unnið Íslandsmeistaratitil í íshokkí.

Í dag setti hún ákveðinn lokapunkt í afrekaskrána þegar hún fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitil í blaki með stöllum sínum í KA. Birna hefur verið viðloðandi blakið hjá KA í 25 ár en hún verður 39 ára í næsta mánuði. Þegar Birna kom í viðtal eftir leik þá var hún í mikilli sigurvímu og lét vaða á súðum.

„Ég er gamla brýnið, það sagði Stebbi Jó. Ég er ánægð með hann. Ég þarf aðeins að ná mér niður hérna“ var það fyrsta sem datt út úr henni.

Hvar lendir þessi titill á listanum yfir afrek þín?

„Ohh, þetta er mjög ofarlega. Við settum okkur markmið í byrjun vetrar að ná öllum titlunum sem voru í boði og við stóðum við það. Mig vantaði að haka í þennan kassa, að verða Íslandsmeistari í blaki og það er komið.“

Það mátti sjá í upphafi leiksins að þú vart algjörlega tilbúin.

„Já veistu það, svoleiðis algjörlega. Ég hafði engu að tapa. Þetta var nefnilega síðasti leikurinn minn í meistaraflokki. Ég er víst búin að segja það áður en þetta er komið gott“ sagði Birna og var svo rokin í myndatöku með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert