Boston svaraði með stórsigri

Leikmenn beggja liða takast á í St. Louis í nótt.
Leikmenn beggja liða takast á í St. Louis í nótt. AFP

Boston Bruins er aftur komið í forystu gegn St. Louis Blues í úrslitaeinvígi NHL-deildarinnar í íshokkí með því að vinna 7:2 stórsigur á útivelli í nótt. Boston er því 2:1 yfir í einvíginu en fjóra sigra þarf til að tryggja sér meistaratitilinn.

Boston vann fyrsta leikinn en tapaði í framlengdum leik síðast. Slík dramatík var þó aldrei uppi á teningnum í nótt er gestirnir skoruðu þrjú mörk í fyrsta leikhluta. Patrice Bergeron, Charlie Coyle og Sean Kuraly sáu um þau.

David Pastrnak kom Boston svo í 4:0 og voru þessi fjögur mörk skoruð úr aðeins fimm skotum. Ivan Barbashev lagaði stöðuna aðeins fyrir heimamenn en staðan var engu að síður 5:1 eftir annan leikhluta þökk sé marki Torey Krug. Aftur skoraði St. Louis í þriðja og síðasta leikhluta, Colton Parayoko þar á ferð, en gestirnir bættu við tveimur mörkum til að innsigla stórsigurinn, Noel Acciari og Marcus Johansson skoruðu á lokamínútunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert