Djokovic örugglega í úrslit

Serbinn Novak Djokovic leikur til úrslita á Wimbledon-mótinu, annað árið …
Serbinn Novak Djokovic leikur til úrslita á Wimbledon-mótinu, annað árið í röð. AFP

Serbinn Novak Djokovic fær tækifæri til þess að verja titil sinn á Wimbledon-mótinu í tennis sem fram fer í London þessa dagana eftir þægilegan 3:1-sigur gegn Spánverjanum Roberto Bautista Agut í undanúrslitum í dag.

Djokovic byrjaði leikinn frábærlega og vann fyrsta settið örugglega, 6:2. Roberto Agut vann annað settið 6:4 og jafnaði þar með metin. Djokovic reyndist hins vegar sterkari í þriðja og fjórða setti þar sem hann vann 6:3 og 6:2.

Djokovic lagði Kevin Anderson í úrslitaleik á mótinu í fyrra og fær því tækifæri til þess að verja titil sinn í einliðaleik karla. Úrslitaleikurinn fer fram á sunnudaginn og þar mætir Djokovic annaðhvort Roger Federer eða Rafael Nadal.

mbl.is