Carlsen ósigraður 111 skákir í röð

Magnus Carlsen hefur ekki tapað í síðustu 111 skipti sem …
Magnus Carlsen hefur ekki tapað í síðustu 111 skipti sem hann sest niður í keppnisskák. AFP

Norski skákmaðurinn Magnus Carlsen setti nýtt heimsmet í dag, þegar hann tefldi sína 111. skák í röð án þess að tapa. Með því bætti hann heimsmet Rússans Sergei Tiviakov, sem staðið hafði óhaggað frá árinu 2005, en andstæðingar Tiviakovs voru ekki af sömu stærðargráðu og hjá Carlsen. 

Breski miðillinn Guardian greinir frá því að Carlsen hafi verið ögn efins um að hann væri í raun og veru búinn að slá metið, þar sem inni í þessum 111 skákum voru tvær skákir frá norska meistaramótinu, gegn keppinautum sem eru ekki á meðal þeirra hæst skrifuðu í heimi.

Carlsen var ekki viss um hvort hann ætti að láta þá teljast með í metinu. Í dag kvað þó við annan tón hjá þessum 29 ára gamla Norðmanni.

„Ég er alveg tilbúinn að [fallast á að ég sé búinn að slá heimsmetið] líka,“ sagði Carlsen, sem sagði að hann teldi 109 skákir vera gegn elítu-skákmönnum og 111 gegn góðum andstæðingum.

„Ég er ánægður með það,“ sagði Carlsen við blaðamenn, en hann tekur nú þátt í alþjóðlegu móti í Hollandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert