Heimsmeistari í tveggja ára bann

Christian Coleman er ríkjandi heimsmeistari í 100 metra spretthlaupi.
Christian Coleman er ríkjandi heimsmeistari í 100 metra spretthlaupi. AFP

Bandaríkjamaðurinn Christian Coleman, ríkjandi heimsmeistari í 100 metra spretthlaupi, hefur verið úrskurðaður í tveggja ára keppnisbann fyrir að skrópa í þremur lyfjaprófum í röð.

Coleman, sem er 24 ára gamall, mun því ekki geta tekið þátt á Ólympíuleikunum í Tókýó sem áttu að fara fram sumarið 2020 en var frestað til 2021 vegna kórónuveirufaraldursins.

Coleman vann til gullverðlauna í 100 metra spretthlaupi á HM í Doha í Katar árið 2019 en hann vann einnig til gullverðlauna í 4x100 metra boðhlaupi með sveit Bandaríkjanna í Doha.

Coleman hefur ennþá þrjátíu daga til þess að áfrýja úrskurði aganefndar Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins en þá mun Alþjóðaíþróttadómstóllinn taka málið fyrir.

Spretthlauparinn átti fyrst að mæta í lyfjapróf í janúar 2019. Hann átti svo að mæta í apríl 2019 og desember sama ár en skrópaði í öllum prófunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert