Klifursamband Íslands 34. sérsamband ÍSÍ

Stjórn Klifursambands Íslands.
Stjórn Klifursambands Íslands. Ljósmynd/ÍSÍ

Klifursamband Íslands varð 34. sérsamband ÍSÍ í dag á stofnþingi sambandsins en klifuríþróttin hefur vaxið hratt á Íslandi undanfarin ár.

Klifurnefnd ÍSÍ var sett á laggirnar árið 2018 og vann hún ötullega að eflingu og útbreiðslu íþróttarinnar á landsvísu.

Í dag er íþróttin stunduð í sex íþróttafélögum í sex íþróttahéruðum innan ÍSÍ og er von á frekari fjölgun deilda á næstu mánuðum.

Manúela Magnúsdóttir var kjörin fyrsti formaður sambandsins og þá voru þau Rúna Thorarensen, Vikar Hlynur Þórisson, Örn Árnason og Elmar Orri Gunnarsson kjörin í stjórn.

„Íþróttin varð ólympísk íþrótt þegar skipuleggjendur Ólympíuleikanna í Tókýó völdu hana sem eina af þeim valgreinum sem skipuleggjendum er heimilt að velja fyrir leikana í viðkomandi landi,“ segir í fréttatilkynningu ÍSÍ.

„Klifurkeppnin á Ólympíuleikunum var æsispennandi og áhorf á greinina var mikið. Ljóst er að hún hefur skapað sér sess á leikunum þar sem framkvæmdanefnd Ólympíuleikanna í París hefur þegar tilkynnt að klifur verði einnig á meðal keppnisgreina þar árið 2024,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert