Náðu loks að vega risann

Stetson Bennett, leikstjórnandi Georgia Bulldogs kyssir bikarinn eftir sigurinn í …
Stetson Bennett, leikstjórnandi Georgia Bulldogs kyssir bikarinn eftir sigurinn í úrslitaleiknum. AFP

Alabama og Georgia börðust um meistaratitilinn í háskólaruðningnum hér vestra í nótt í Indianapolis. Eftir 41 ára bið, náði Georgia loks að vinna titilinn að nýju eftir að hafa unnið Alabama 33:18 á sterkum endaspretti. 

Háskólaruðningurinn er leikinn í svæðabundnum deildum hér vesta, t.d. í miðvesturríkjunum, suðurríkjunum, og vesturríkjunum. Að lokinni deildakeppninni hefur AP fréttastofan og samtök þjálfara síðan sett upp lista í áratugi yfir þau lið sem talin voru best á landsvísu og léku þá tvö bestu liðin til úrslita.

Fyrir sjö árum síðan var stofnuð sérstök nefnd af háskólasamtökum ruðningsliðanna (FBS) og íþróttafréttamönnum til að velja fjögur lið til að berjast um titilinn, allt eftir háværa áratuga gagnrýni á því hver væru í raun bestu tvö liðin.

Undanfarin ár hefur SEC deildin í suðurríkjunum haft yfirburði í keppninni og hafa lið úr þeirri deild unnið ellefu af síðustu fimmtán úrslitaleikjum. Deildin hefur á þessum tíma ávallt haft allavega eitt lið í úrslitaleiknum. 

Sigur Georgia er stuðningsfólki liðsins kærkomin eftir sjö tapleiki gegn risanum í háskólaruðningnum – Alabama Crimson Tide. 

Kirby Smart þjálfari Georgia Bulldogs fagnar sigrinum í leikslok.
Kirby Smart þjálfari Georgia Bulldogs fagnar sigrinum í leikslok. AFP

Það er ekki oft sem að lið ná að vera ríkjandi lið í deildum hér vestra, þar sem allar stærri íþróttadeildir hafa reglur sem settar eru upp til að skapa samkeppni, t.d. með háskólavali og launaþaki í atvinnudeildinum. Í háskólaruðningnum eru nægilega mörg lið á landsvísu og næg samkeppnin eftir bestu leikmönnunum úr gagnfræðaskólunum – auk þess sem að leikferillinn er aldrei meira en fjögur ár – að erfitt er að halda liði á toppnum ár eftir ár.

Því hefur Alabama þó tekist eftir að það réði Nick Saban sem aðalþjálfara fyrir fjórtán árum. Honum hefur tekist að vera með liðið annaðhvort í fyrsta eða öðru sæti í styrkleikamatinu hvert ár síðan hann tók við þjálfarstöðunni og hann var að eltast eftir sjöunda meistaratitlinum hjá Alabama. 

Leikmenn og þjálfarar Georgia Bulldogs fagna eftir að leikurinn var …
Leikmenn og þjálfarar Georgia Bulldogs fagna eftir að leikurinn var flautaður af. AFP

Georgia fer í gang á réttum tíma

Fyrir þjálfara Georgia, Kirby Smart, var sigurinn sætur, en hann var aðstoðarþjálfari hjá Alabama í átta ár áður en að hann tók við þjálfara stöðunni hjá Georgia fyrir sex árum. 

Leikur liðanna var hnífjafn fyrstu þrjá leikhlutana þar sem varninar voru allsráðandi, rétt eins og háskólaruðningurinn var um áratuga bil – staðan 9:6 fyrir Alabama um miðjan seinni hálfleikinn. Það var þá sem sóknarliðin fóru í gang. Georgia skoraði snertimark, sem Alabama svaraði næstu strax – 18:13 fyrir Alabama – en í síðasta leik hlutanum átti Alabama ekkert svar við sókn Georgia sem skoraði tuttugu síðustu stig leiksins og vann sannfærandi á endanum, 33:18.

Brock Bowers fagnar marki fyrir Georgia Bulldogs í leiknum í …
Brock Bowers fagnar marki fyrir Georgia Bulldogs í leiknum í nótt. AFP

Georgia var talið sterkasta liðið í háskólaruðningnum allt keppnistímabilið, enda með besta varnarliðið. Leikstjórnandi liðsins, Stetson Bennett, var nógu traustur í seinni hálfleiknum til að leiða lið sitt til sigurs, en hann hafði lent í baráttu við slattan af öðrum leikmönnum í gegnum fjögur ár í stöðu leikstjórnanda. Fáir höfðu trú á því að hann myndi nokkurtíma slá út aðra leikmenn sem taldir voru mun betri til að stjórna sókninni, en Bennett (sem kom úr litlum bæ í suðurhluta Georgíu) gafst aldrei upp og uppskar tækifærið á að leiða sóknarliðið þetta keppnistímabil. 

Alabama getur vel við unað þrátt fyrir tapið. Liðið lenti í meiðslum lykilleikmanna seinnipart keppnistímabilsins og í úrslitaleiknum sjálfum, sem reyndist of erfitt að yfirbuga gegn sterku liði Georgia.

Adonai Mitchell hjá Georgia Bulldogs í þann veginn að skora …
Adonai Mitchell hjá Georgia Bulldogs í þann veginn að skora án þess að Khyree Jackson hjá Alabama Crimson Tide nái að stöðva hann. AFP

Úrslitaleikurinn á næsta ári fer fram á nýja SoFi leikvanginum hér í Los Angeles og stefnum við hér á íþróttadeildinni að því að vera á staðnum. Ég hef verið á stórleikjum í háskólaruðningnum hér á Rose Bowl leikvanginum og er stemningin í kringum þessa leiki ólýsanleg, utan sem innan vallarins. Það koma tugþúsundir af stuðningsfólki liðanna og er ávall mikið fjör á bílastæðum við leikvangana fyrir leikina. Sú stemning er síðan flutt inn á leikvanginn þar sem tvær hundrað manna lúðrasveitir marséra um völlinn með tilheyrandi tilþrifum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert