Trans frjálsíþróttakonum gæti einnig verið meinað að keppa í kvennaflokki

Sebastian Coe, forseti IAAF.
Sebastian Coe, forseti IAAF. AFP

Sebastian Coe, forseti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF, hefur gefið það í skyn að sambandið gæti fetað í fótspor Alþjóðasundsambandsins, FINA, í að meina transkonum sem hafa gengið í gegnum karlkyns kynþroskaskeið að keppa í kvennaflokki.

Flest sérsambönd í íþróttum, þar á meðal IAAF, hafa látið það nægja að ef testosterón-magn transkvenna er undir ákveðnum mörkum megi þær keppa í kvennaflokki.

FINA ákvað á dögunum að koma frekar á fót svokölluðum opnum flokki og meina transkonum sem hafa upplifað einhvern hluta karlkyns kynþroskaskeiðs að keppa í kvennaflokki. Karlaflokkurinn verður á hinn bóginn áfram opinn öllum transkörlum.

Coe sagði í samtali við BBC Sport að IAAF muni brátt ræða nýjar reglur í tengslum við það hverjir muni mega taka þátt í kvennaflokki og fagnaði ákvörðun FINA.

„Við sjáum alþjóðlegt samband koma því skýrt á framfæri hvað gengur fyrir hjá því með því að setja á fót reglur, reglugerðir og stefnur sem þjóna best hagsmunum íþróttar sinnar.

Svona á þetta að vera. Við höfum alltaf staðið í þeirri trú að líffræði sé ofar kyni og munum halda áfram að skoða reglugerðir okkar með hliðsjón af því. Við munum fylgja vísindunum.

Við höldum áfram að læra, rannsaka og leggja okkar af mörkum þegar kemur að síauknu magni sönnunargagna um að testosterón sé lykilatriði þegar kemur að frammistöðu og áætlum umræður um regulgerðir okkar með ráði okkar undir lok þessa árs,“ sagði Coe meðal annars.

mbl.is