Afturelding hafði betur í oddahrinu

Afturelding vann góðan sigur á HK í gærkvöldi.
Afturelding vann góðan sigur á HK í gærkvöldi. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

HK tók á móti Aftureldingu í Digranesi í úrvalsdeild karla í blaki í gærkvöld. Þar hafði Afturelding 3:2-sigur í æsispennandi viðureign.

Afturelding er þar með aðeins stigi á eftir toppliði Hamars sem hefur unnið alla fimm leiki sína og er með 15 stig. Afturelding er með 14 stig eftir sjö leiki. KA er með 9 stig, Vestri 7, HK 6, Þróttur Fjarðabyggð 6 en Stál-úlfur er án stiga.

HK byrjaði leikinn vel og vann fyrstu hrinuna 26:24. Önnur hrina var fremur jöfn en Afturelding vann hana að lokum 25:21. Þriðja hrinan fór svo 25:17 fyrir HK.

Afturelding gafst ekki upp og vann fjórðu hrinu 25:19. Staðan var þá orðin 2:2 og því þurfti oddahrinu til þess að knýja fram úrslit.

Í oddahrinunni byrjuðu bæði lið vel. Í kjölfar þess að HK komst í 10:9 tók við góður kafli hjá Aftureldingu sem skilaði að lokum 15:12-sigri í hrinunni og 3:2-sigri í leiknum.

Stigahæstur í liði Aftureldingar var Dorian Poinc með 32 stig og næstur á eftir honum var Atli Fannar Pétursson með 21 stig.

Stigahæstur í liði HK var Mateusz Klóska með 27 stig og næstur var Valens Torfi Ingimundarson með 18 stig.

Næsti leikur hjá Aftureldingu er á sunnudaginn næsta, 4. desember, þegar liðið fær Vestra í heimsókn í Mosfellsbæ.

Næsti leikur hjá HK er svo á laugardaginn næsta, 3. desember, á Neskaupstað þar sem liðið heimsækir Þrótt Fjarðabyggð.

mbl.is