Skotinn til bana í Þýskalandi

Besar Nimani.
Besar Nimani. Ljósmynd/John

Besar Nimani, fyrrverandi meistari í hnefaleikum, er látinn 38 ára að aldri. Lést hann í skotárás í heimabæ sínum Bielefeld í Þýskalandi um helgina.

Þýski miðilinn Bild greinir frá því að Nimani hafi verið að yfirgefa kaffihús í borginni á laugardagskvöld þegar tíu skotum var hleypt af.

Hann var úrskurðaður látinn á vettvangi. Talið er að banamennirnir hafi verið tveir. Komust þeir undan og er enn leitað samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni í Bielefeld.

Sigursæll hnefaleikakappi

Nimani var Kósovó-Albani sem flutti til Þýskalands sem flóttamaður ásamt fjölskyldu sinni árið 1997 þegar hann var á 12. aldursári.

Á hnefaleikaferlinum vann hann 26 af 27 atvinnubardögum sínum og var eitt sinn handhafi IBF European Super-beltisins í veltivigt.

Lenti áður í skotárás

Nimani hafði áður lent í skotárás. Í ágúst árið 2013 lenti hann í rifrildi ásamt bróður sínum Berat á tyrkneskum veitingastað.

Berat hæfði gest á veitingastað í höfuðið með kókflösku með þeim afleiðingum að annar aðili dró upp byssu og hleypti af.

Fimm manns meiddust í þeirri árás, þeirra á meðal Nimani.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert