Ótrúleg endurkoma Akureyringa sem jöfnuðu metin í einvíginu

Úr fyrsta leik liðanna á Akureyri á þriðjudag.
Úr fyrsta leik liðanna á Akureyri á þriðjudag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Skautafélag Akureyrar vann magnaðan endurkomusigur á Skautafélagi Reykjavíkur í öðrum leik úrslitaeinvígis Íslandsmótsins í íshokkí karla í Laugardalnum í kvöld. Jóhann Már Leifsson átti stórleik fyrir SA en hann skoraði þrennu og var allt í öllu í endurkomunni. Staðan í einvíginu er 1:1 en SR vann fyrsta leikinn á Akureyri.

Fyrsti leikhlutinn var mikil skemmtun og virtust bæði lið tilbúin í baráttuna sem fylgir úrslitaeinvíginu. Heimamenn voru þó örlítið sterkari og fengu hættulegri færi. Framlagshæsti leikmaður deildarkeppninnar, Petr Stepanek, kom SR yfir á 6. mínútu leiksins en hann smellti pekkinum þá glæsilega upp í hornið eftir að Jakob Jóhannesson, markvörður SA, varði skot Sölva Atlasonar. Markið kom í einni af tveimur yfirtölu heimamanna í leikhlutanum en bæði lið fengu tvær brottvísanir.

Þrátt fyrir hörkufæri á báða bóga það sem eftir lifði leikhlutans urðu mörkin ekki fleiri og voru það því heimamenn í SR sem leiddu með einu marki gegn engu þegar honum lauk.

Það var allt annað og öflugra SA-lið sem mætti til leiks í öðrum leikhluta. Liðið var klárlega sterkari aðilinn á svellinu og sótti svo gott sem án afláts. Helstu færi heimamanna komu þegar SA-liðið tapaði pekkinum á hættulegum stöðum með lið sitt framarlega. 

Það var því þvert gegn gangi leiksins sem Petr Stepanek tvöfaldaði forystu SR þegar annar leikhluti var hálfnaður. Hann slapp þá einn gegn Jakobi eftir klaufagang í vörn SA og kláraði af stakri yfirvegun. 

Yfirvegun Stepaneks í færinu er eitthvað sem SA-liðið hefði mátt taka sér til fyrirmyndar í öðrum leikhluta en liðið gjörsamlega óð í færum. Það var hreint með ólíkindum hversu illa liðinu gekk að skora miðað við færin en Jóhann Ragnarsson varði eins og berserkur í marki SR. Ísinn var þó brotinn á 33. mínútu en Atli Sveinsson átti þá virkilega huggulega sendingu á Róbert Hafberg sem kláraði skemmtilega yfir Jóhann af stuttu færi.

Gangur leiksins breyttist þó ekkert við markið heldur hélt SA áfram að sækja án þess að koma pekkinum í netið. Liðinum var heldur betur refsað fyrir það því á 39. mínútu komst Kári Arnarsson óáreittur upp svellið eftir skiptingar hjá gestunum. Kári átti skot sem fór í varnarmann en fékk pökkinn aftur og gerði þá engin mistök.

Staðan fyrir þriðja leikhluta var því 3:1, heimamönnum í vil og ljóst að á brattann yrði að sækja fyrir gestina.

Þriðji leikhlutinn byrjaði virkilega vel fyrir Akureyringa en Jóhann Már Leifsson minnkaði muninn strax á 43. mínútu. Hann tók þá á rás upp allt svellið, sólaði tvo varnarmenn ásamt Jóhanni markverði áður en hann lagði pökkinn í netið.Algjörlega magnað mark hjá Jóhanni og ljóst að lokaleikhlutinn yrði gífurlega spennandi.

Á 46. mínútu jöfnuðu gestirnir svo metin. Liðið var þá í yfirtölu eftir að Sölvi Atlason hafði fengið tveggja mínútna brottvísun og sótti hart að marki SR. Eftir mikið klafs fyrir framan markið tókst Jóhanni Má að ýta pekkinum yfir línuna og jafna metin með öðru marki sínu.

Það var þó ekki nema tæpri mínútu síðar sem SR náði forystunni á nýjan leik. Sölvi Atlason átti þá góðan sprett upp svellið, kom sér einn gegn Jakobi og kláraði svo virkilega vel framhjá honum.

Jóhann Már var þó ekki hættur. Á 51. mínútu jafnaði hann metin á nýjan leik og fullkomnaði um leið þrennu sína. Hann fékk þá pökkinn í fínu skotfæri eftir að heimamenn voru í vandræðum að koma honum frá og smellti honum fallega framhjá nafna sínum í marki SR. Jóhann Már var þarna heldur betur að minna alla á að hann er einn allra besti íshokkíspilari landsins og hefur verið það undanfarin ár.

Á 56. mínútu voru það svo gestirnir sem komust yfir í fyrsta sinn í leiknum. Liðið spilaði þá skemmtilega sín á milli áður en Hafþór Sigrúnarson færði pökkinn á fjærsvæðið þar sem Gunnar Arason beið og kláraði vel á nærstöngina, framhjá Jóhanni.

Eftir mark Gunnars kom mikil pressa frá heimamönnum í þeirri von að jafna metin. SR tók leikhlé þegar rétt tæplega mínúta var eftir en þá var Jóhann tekinn úr markinu og auka útileikmaður settur inn í staðinn.

Gestirnir frá Akureyri vörðust fimlega síðustu mínútuna og héldu út. Orri Blöndal fékk tveggja mínútna brottvísun þegar fimm sekúndur voru eftir af leiknum en reyndist tíminn einfaldlega of lítill fyrir heimamenn að nýta sér tvöföldu yfirtöluna.

Næsti leikur liðanna fer fram á Akureyri á laugardaginn og er ljóst að allt verður jafnt fyrir þann leik. Þá er þar með staðfest að við fáum annan leik hér í Laugardalnum á þriðjudaginn í næstu viku.

SR 4:5 SA opna loka
60. mín. SR Textalýsing Mínúta eftir. Gestirnir halda enn sem komið er! SR tekur leikhlé!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert