Fyrsti atvinnukylfingurinn utan skápsins

Tadd Fujikawa greindi frá samkynhneigð sinni á Instagram.
Tadd Fujikawa greindi frá samkynhneigð sinni á Instagram. Ljósmynd/@taddy808

Bandaríkjamaðurinn Tadd Fujikawa, yngsti kylfingur sem leikið hefur á US Open, greindi frá því á Instagram-síðu sinni í vikunni að hann væri samkynhneigður.

Fujikawa er þar með fyrsti karlkyns atvinnukylfingurinn sem lýsir því yfir opinberlega að hann sé samkynhneigður, samkvæmt miðlum á borð við golf.com og golfdigest.com. Þessi 27 ára kylfingur, sem fæddur er á Havaí, segist í tilefni alþjóðlegs forvarnadags gegn sjálfsvígum hafa viljað segja sína sögu í von um að hjálpa öðrum.

„Ég reikna ekki með því að allir muni skilja eða samþykkja mig. En vinsamlegast sýnið þá virðingu að þröngva ekki ykkar lífsviðhorfum upp á mig eða aðra í LGBTQ-samfélaginu. Ég vona að þessi skrif verði öðrum hvatning og fái fólk til að sýna hvað öðru meiri skilning og ást,“ skrifaði Fujikawa meðal annars á Instagram.

Fujikawa var aðeins 15 ára áhugakylfingur þegar hann vann sér sæti á US Open árið 2006 og er hann enn yngstur allra til að spila á risamótinu. Hann er einnig meðal þeirra yngstu til að komast í gegnum niðurskurð á PGA-móti, á Sony Open heima á Havaí árið 2007.

„Ég er búinn að vera fram og til baka varðandi það að opna mig um kynhneigð mína. Mér fannst ég ekki þurfa að segja frá þessu því það skipti ekki máli hvort fólki vissi þetta. En ég man hve sögur annarra hafa hjálpað mér mikið til þess að hafa von á erfiðustu stundunum. Ég varði allt of löngum tíma í það að þykjast, vera í felum og hata sjálfan mig. Ég var alltaf hræddur um hvað aðrir héldu eða segðu. Ég hef átt erfitt andlega í mörg ár út af þessu og þetta kom mér á mjög slæman stað. Núna stend ég með sjálfum mér og hinum í LGBTQ-samfélaginu í von um að verða öðrum hvatning og breyta lífi einhvers til hins betra,“ skrifaði Fujikawa en skrif hans í heild má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert