Erfiður síðasti hringur í Suður-Afríku

Guðmundur Ágúst Kristjánsson
Guðmundur Ágúst Kristjánsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarinn og atvinnukylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson átti erfitt uppdráttar á fjórða og síðasta hring sínum á RAM Cape Town Open-mót­inu í Áskor­enda­mótaröð Evr­ópu í Suður-Afr­íku sem fram fór um helgina. 

Guðmundur lék á 75 höggum, eða þremur höggum yfir pari, og lauk leik á samtals tveimur höggum yfir pari. Guðmundur lék stórglæsilega á öðrum hring, eða á sex höggum undir pari, en lék aðra hringi yfir pari. 

Mótið var það fyrsta hjá Guðmundi á leiktíðinni og annað mótið á mótaröðinni. Haraldur Franklín Magnús tók einnig þátt en varð að draga sig úr keppni á öðrum hring vegna bakmeiðsla. Haraldur tók þátt í fyrsta móti ársins en náði sér ekki á strik og féll úr leik eftir tvo hringi. 

Næsta mót Guðmundar er á fimmtudaginn, einnig í Suður-Afríku, en það ber nafnið Dimension Daga Pro Am. Þar tekur Haraldur ekki þátt. 

mbl.is