Haraldur svaraði og fór áfram

Haraldur Franklín Magnús er kominn í átta manna úrslit þrátt …
Haraldur Franklín Magnús er kominn í átta manna úrslit þrátt fyrir tap í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús tapaði óvænt fyrir hinum átján ára gamla Kristófer Karli Karlssyni í riðlakeppni Íslands­móts­ins í holu­keppni á Jaðarsvelli á Ak­ur­eyri í gær.

Haraldur svaraði tapinu með sigri á Sigurði Arnari Garðarssyni í dag, en sigurinn tryggði honum sæti í átta manna úrslitunum sem fara fram síðar í dag. Þar mætir hann öðrum atvinnukylfingi, Ólafi Birni Loftssyni. 

Íslandsmeistarinn í höggleik Guðmundur Ágúst Kristjánsson vann alla þrjá leiki sína í riðli 1 og leikur gegn Andra Má Óskarssyni í átta manna úrslitum. Andri vann tvo leiki og tapaði einum í riðlakeppninni. 

Atvinnukylfingarnir Axel Bóasson og Andri Þór Björnsson mætast sömuleiðis í átta manna úrslitum, en þeir unnu báðir allar þrjár viðureignir sínar í riðlakeppni. Þá mætast Hákon Örn Magnússon og Aron Snær Júlíusson einnig í átta manna úrslitunum, sem fara af stað klukkan 14:32. 

Undanúrslit og úrslit fara fram á morgun og er ræst af stað klukkan 8 í undanúrslitum og 12:40 í úrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert