Bærinn stendur þétt við bakið á okkur

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, stýrir liði sínu í leik liðsins ...
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, stýrir liði sínu í leik liðsins gegn Val í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn byrjuðu úrslitakeppnina af miklum krafti þegar liðið sigraði Valsmenn með átta marka mun í fyrsta leik liðanna í 8 liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í Eyjum í dag. Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, var mjög sáttur þegar hann ræddi við mbl.is eftir leikinn í dag.

„Ég bjóst við sigri en átta marka sigur gefur ekki alveg rétta mynd af þessum leik. Þetta var hörkuleikur í 55 mínútur. Við áttum tvö og þrjú mörk og fórum upp í fjögurra marka forystu nokkrum sinnum í leiknum. Þeir voru alltaf inni í þessu og líklegir þannig að átta mörk segir ekki neitt,“ sagði Arnar um þróun leiksins.

„Þetta var meira okkar dagur en þeirra í dag. Við vorum alltaf skrefi á undan þeim, en við vitum það þó að Valsarar eru með frábært lið. Þeir eru bikarmeistarar og komnir í undanúrslit í Evrópukeppninni. Þetta er vel skipulagt lið og vel þjálfað. Juric sýndi það í fyrri hálfleik að hann getur skotið, en hann kom með nokkrar þrumur sem við réðum ekkert við,“ sagði Arnar um Valsliðið.  

Reynum að gera okkar til þess að búa til stemningu

„Við vorum hins vegar virkilega grimmir og flottir hérna á heimavelli með frábæran stuðning sem er einstakur. Við gerum ekkert án þess að vera með bæjarfélagið með okkur, þessa frábæru áhorfendur. Við vinnum í því að gera þetta skemmtilegt, hafa sýningu í kringum þetta,“ sagði Arnar um stemninguna í Eyjum í dag. 

„Við komum með eldvörpu í dag og erum með eitthvert ljósa-show eins og mörg önnur lið eru að gera. Það eru allir að reyna að trekkja upp stemninguna en við erum líka duglegir að taka á okkur hin og þessi verkefni í bænum sem veita okkur velvild meðal bæjarbúa og við reynum að endurgjalda þennan stuðning og þessa velvild með því að leggja okkur fram inni á vellinum. Það myndast ákveðið samband sem við náum vonandi að halda í einhverjar vikur í viðbót,“ sagði Arnar enn fremur um stemninguna í kringum lið ÍBV.

„Það væri gott að reyna að koma sem flestum stuðningsmönnum ÍBV í leikinn úti á miðvikudaginn og vonandi verður Landeyjahöfn í lagi þannig að þetta sé eins einfalt og hægt er að hafa það. Ef það verður ekki þá þurfum við að finna kafbát til að fara með þá yfir, við þurfum á þeim að halda,“ sagði Arnar um stuðning Hvítu riddaranna í næsta einvígi ÍBV gegn Val.

Það virðist vera mikill hiti á milli liðanna, en Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Vals, vildi meina að það væri bara vorið, er Arnar sammála því?

„Eigum við ekki bara að segja það að þetta sé vorið. Bæði liðin vilja fara áfram, það er kannski ekki óeðlilegt að það sé ástríða og hiti í þessu, eftir leik eru menn svo orðnir félagar og vinna sem best fyrir velferð handboltans og stefna að því sama,“ sagði Arnar um þá pústra sem voru innan sem utan vallar í leik liðanna í dag.  

mbl.is