Systurnar sömdu við Selfyssinga

Hulda Dís Þrastardóttir og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir.
Hulda Dís Þrastardóttir og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, landsliðskona í handknattleik, hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild Selfoss og leikur áfram með liðinu á næsta tímabili.

Hrafnhildur Hanna hefur verið einn mesti markaskorari úrvalsdeildarinnar undanfarin tímabil og hún hefur skorað 47 mörk í 22 landsleikjum fyrir Íslands hönd. Hún missti af þremur síðustu leikjum Íslandsmótsins í vetur vegna meiðsla en skoraði 174 mörk í 18 leikjum og varð þrátt fyrir það markadrottning deildarinnar.

Hún missir þó af stórum hluta tímabilsins þar sem hún sleit krossband í hné í landsleik Íslands og Hollands í mars.

Hulda Dís Þrastardóttir, systir hennar, hefur einnig framlengt samning sinn við Selfyssinga en hún hefur einnig leikið með liðinu undanfarin ár og verið í stóru hlutverki í varnarleik þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert