„Stórkostlegt tækifæri fyrir þessa stráka“

Einar Guðmundsson.
Einar Guðmundsson. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

„Einhverjir af þeim sem eru að fara að spila við Japan munu vonandi spila á stórmóti eftir ár og þeir vita það sjálfir,“ sagði handknattleiksþjálfarinn Einar Guðmundsson við mbl.is, en hann stýrir svokölluðum Afrekshópi HSÍ sem er skipaður leikmönnum úr Olís-deild karla hér á landi og mun mæta landsliði Japan í Laugardalshöll annað kvöld.

Dagur Sigurðsson er sem kunnugt er landsliðsþjálfari Japan og í kvöld mun Íslenska A-landsliðið mæta því japanska í undirbúningi sínum fyrir EM. Á morgun er svo komið að Afrekshópnum og Einar segir frábært að fá verkefni fyrir þessa stráka, en í hópnum eru þeir leikmenn hér á landi sem taldir eru líklegir að taka skrefið í átt að A-landsliðinu.

„Það verður frábært fyrir okkur að fá landsleik á heimavelli og þetta er stórkostlegt tækifæri fyrir þessa stráka. Ég veit að þeir eru tilbúnir og ætla sér stóra hluti. Það er mitt hlutverk að stilla þá af,“ sagði Einar og veit að hann er með framtíðar landsliðsmenn í höndunum.

„Já og ég sagði við þá að það þarf að vera góður á réttum stað á réttum tíma. Það skiptir máli að vera góður á stóra sviðinu. Það er frábært að fá þessi alþjóðlegu tækifæri fyrir þá. Það er til dæmis reynslan hjá liðum eins og FH í Evrópukeppni að slíkt skilar sér margfalt til strákanna. Það er frábært að við getum veitt þeim sem við teljum vera næsta inn í landsliðið tækifæri til að sýna sig,“ sagði Einar.

Afrekshópurinn fer á mót í Hollandi

Afrekshópurinn var settur á laggirnar með það að leiðarljósi að brúa það bil sem oft vill myndast á milli yngri landsliða og A-landsliðsins. Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari, fylgist því grannt með strákunum í Afrekshópnum.

„Hann hefur mætt á allar æfingarnar og tekið þátt. Strákarnir eru alveg gíraðir í það að sýna sig fyrir honum enda hefur hann svo kippt mönnum inn í A-landsliðið. Mér finnst endurnýjunin hafa verið skynsamleg, ekki of hröð en ekki of hæg heldur. Þetta hefur verið tekið í jöfnum og þéttum skrefum,“ sagði Einar sem fer með hópinn eins og um landsliðið væri að ræða.

„Mitt hlutverk er að koma þessum strúktúr sem er í kringum A-landsliðið niður í Afrekshópinn ásamt öllu faglegu starfi. Þetta er sett upp fyrir þá sem vilja meira, eru komnir langt og stefna hátt að þeir fái fleiri tækifæri. Ég hef unnið með þeim öllum áður, þekki þá mjög vel og þeir þekkja mínar aðferðir. Þetta er rosalega mikilvægt og það eru mikil gæði í æfingunum. Þeim finnst þetta gaman að koma saman og fá þetta uppbrot í tímabilið,“ sagði Einar.

Landsleikurinn við Japan á morgun verður fyrsti eiginlegi keppnisleikur Afrekshóps HSÍ, en framundan eru fleiri spennandi verkefni. Hópurinn er á leið á fjögurra liða mót í Hollandi 2.-8. apríl, en á sama tíma mun A-landsliðið taka þátt í fjögurra þjóða móti í Noregi.

„Við munum mætum Japönum, Hollendingum og einu liði í viðbót. Þarna verður deildarkeppnin er búin og úrslitakeppnin hefst eftir það. Það verður kærkomið fyrir strákana í Olís-deildinni að fá að sanna sig þar,“ sagði Einar Guðmundsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert