Sænska stórskyttan áfram hjá Alfreð

Lukas Nilsson í leik með Svíum á EM í Króatíu …
Lukas Nilsson í leik með Svíum á EM í Króatíu í janúar. AFP

Sænska stórskyttan og landsliðsmaður í handknattleik, Lukas Nilsson, hefur framlengt samning sinn við þýska stórliðið Kiel til ársins 2021. Nilsson kom í herbúðir Alfreðs Gíslasonar fyrir tveimur árum og hefur síðan leikið 98 leiki fyrir liðið og skorað í þeim 263 mörk.

„Mér og Hönnu kærustu minni líkar vel að búa í Kiel en fyrst og fremst er það draumi líkast að leika fyrir Kiel og frábæra stuðningsmenn okkar,“ sagði Nilsson eftir að hann skrifaði undir nýjan samning. Nilsson var í sænska landsliðinu á EM í Króatíu sem lék til úrslita við Spánverja en tapaði. Hann náði þó aldrei að sýna sínar réttu hliðar á mótinu. 

„Lukas hefur sótt í sig veðrið síðasta árið. Hann býr yfir mikilli skottækni auk þess sem hann hefur jafnt og þétt komist vel inn í leik liðsins,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, um sænsku stórskyttuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert