Fyrrverandi Evrópumeistarar í basli

Talant Dujshebaev þjálfari Kielce fagnaði fyrir tveimur árum þegar Vive …
Talant Dujshebaev þjálfari Kielce fagnaði fyrir tveimur árum þegar Vive Kielce vann Meistaradeild Evrópu í handknattleik. AFP

Pólska handknattleiksliðið Vive Kielce, sem vann Meistaradeild Evrópu fyrir tveimur árum of fimmtán faldur  pólskur meistari er í miklum fjárhagserfiðleikum um þessar mundir. Svo gæti farið að félagið óski eftir gjaldþrotaskiptum á næstu vikum áskotnist því ekki fljótlega fé til rekstursins.

Leikmenn liðsins hafa ekki fengið greitt laun um skeið og hermt er að einhverjir þeirra eigi inni allt laun fyrir síðustu fimm mánuði.

Stjórnendur Vive Kielce hafa óskað eftir fjárhagsaðstoð frá bæjaryfirvöldum í Kielce sem nemur að minnsta kosti einni milljón evra, jafnvirði um 125 milljónum króna.  Sú upphæð gæti bjargað félaginu fyrir horn en meira þarf til þess að skjóta styrkari fótum undir reksturinn til lengri tíma. Uppi eru hugmyndir að breyta Kielce í hlutafélag en óvíst er um áhuga almennings fyrir kaupum á hlutum í félaginu.

Bertus Servaas, iðjuhöldur og stærsti eigandi félagsins segist ekki geta lagt félaginu til meira fjármagn í bili eftir að hafa verið ósínkur á peninga undanfarin sextán ár.

Kurr er á meðal leikmanna Kielce vegna dráttar á launagreiðslum. M.a. yfirgaf Dean Bombac skútunu og samdi við Pick Szeged í Ungverjalandi þrátt fyrir að hafa enn átt fjögur ár eftir af samningi sínum Kielce. Hann nýtti sér uppsagnarákvæði vegna þess að laun höfðu ítrekað ekki verið greidd út. Um skeið hefur verið orðrómur um að króatíski leikstjórnandinn Luka Cindric verði seldur til Paris SG til að bjarga Kielce fyrir horn.

Kielce vann Meistaradeild Evrópu vorið 2016. Liðið komst ekki í undanúrslit í ár þrátt fyrir að talsvert hafi verið lagt í sölurnar og dýrir leikmenn fengnir  og gerður langtímasamningur við þjálfarann, Talant Dujshebaev. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert