Ísland öruggt í 16-liða úrslit

Sandra Erl­ings­dótt­ir (t.v.) átti stórleik í dag. Með henni er …
Sandra Erl­ings­dótt­ir (t.v.) átti stórleik í dag. Með henni er Ragn­hild­ur Edda Þórðardótt­ir og eru þær báðar í U20 ára landsliðinu í hand­knatt­leik. HSÍ

Íslenska landsliðið í hand­knatt­leik kvenna, skipað leik­mönn­um 20 ára og yngri, skellti Kína, 35:20, og tryggði sér þar með sæti í 16-liða úrslitunum á heims­meist­ara­mót­inu sem nú stend­ur yfir í Debr­ecen í Ung­verjalandi. 

Jafnræði var með liðunum fyrsta stundarfjórðunginn og var staðan 7:7 á 14. mínútu. Eftir það tók íslenska liðið frumkvæðið og jók forystu sína smátt og smátt til enda. Sandra Erlingsdóttir átti stórleik og skoraði tíu mörk úr sínum 13 skotum.

Á eftir henni komu þær Berglind Þorsteinsdóttir, Mariam Eradze og Lovísa Thompson, allar með fjögur mörk. Ástríður Glódís Gísladóttir átti svo afbragðsleik í markinu, varði 15 skot af 27 eða 56%.

Rússar hafa fullt hús stiga, átta talsins, eftir umferðirnar fjórar og Suður-Kórea fylgir þar á eftir með sjö. Ísland er svo í þriðja sætinu með fimm stig. Loka­leik­ur riðlakeppn­inn­ar verður á sunnu­dag­inn við Síle og á sama tíma mætast Rússland og Suður-Kórea.

Ísland og Suður-Kórea gerðu jafntefli sín á milli og fari svo að Suður-Kórea tapi gegn Rússlandi getur Ísland hirt annað sætið með betri markatölu. Það munar þó 26 mörkum á liðunum, Ísland er með mínus eitt mark en Suður-Kórea 25 í plús. Það er því á brattann að sækja í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert