Góð frammistaða þrátt fyrir fjarveru lykilmanna

Bjarni Fritzson þjálfari U20 ára landsliðsins.
Bjarni Fritzson þjálfari U20 ára landsliðsins. mbl.is/Hari

Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri sigraði í gær Serbíu 30:27 í lokaleik sínum á Evrópumótinu í Slóveníu og tryggði sér þar með sjöunda sætið á mótinu. Þjálfari liðsins, Bjarni Fritzson sagðist í samtali við Morgunblaðið vera ánægður með árangur liðsins, sérstaklega í ljósi þess að það vantaði marga lykilmenn en í hópinn vantaði til að mynda Gísla Þorgeir Kristjánsson, Teit Örn Einarsson og Kristófer Daða Sigurðsson:

„Við förum inn í þetta mót án ansi margra lykilmanna sem hefur auðvitað áhrif á liðið. Þá verða væntingarnar aðeins minni en í staðinn náum við bara að skapa þessa ótrúlegu liðsheild sem hefur komið okkur áfram í þessu móti. Þetta sýnir ótrúlega breidd og í raun og veru er þessi árgangur mjög flottur. Þetta eru strákar sem gefa hjarta og sál í þetta.“

Strákarnir stóðu sig vel

Bjarni sagði að spilamennska liðsins hefði verið mjög góð allt mótið ef undanskilinn er fyrsti leikur liðsins á mótinu gegn Rúmeníu í riðlakeppninni sem tapaðist 29:19. Sigur á Svíþjóð og jafntefli við Þýskaland skilaði liðinu áfram í milliriðil þar sem liðið gerði jafntefli við Serbíu og tapaði gegn Slóveníu. 

Sjá viðtalið í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.