„Við stóðum þetta af okkur“

Hafþór Már Vignisson var öflugur í leik Akureyrar og Aftureldingar …
Hafþór Már Vignisson var öflugur í leik Akureyrar og Aftureldingar í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hafþór Már Vignisson er 19 ára örvhent skytta í liði Akureyrar í Olís-deild karla í handbolta. Hann dró sína menn að landi í dag þegar Akureyri vann Aftureldingu 25:22. Eftir að gestirnir höfðu jafnað leikinn 20:20 þegar stutt var eftir tók Hafþór af skarið og skoraði tvö næstu mörk. Hann átti svo tvær stoðsendingar í lokin sem skiluðu mörkum af línunni. Það þótti því tilhlýðilegt að ná tali af drengnum eftir leik.

Þetta var dálítið tæpt hjá ykkur. Þið leidduð nánast frá byrjun en Afturelding var alltaf á hælunum á ykkur. Þið sluppuð með að skora bara tvö mörk fyrra kortérið í seinni hálfleik og það var alltaf hætta á að missa leikinn í jafntefli eða tap.

„Þeir byrjuðu ansi æstir í seinni hálfleiknum en við náðum að hanga á forskotinu. Svo verð ég bara að nota gömlu klisjuna. Við sýndum mikinn karakter og góða liðsheild þegar þeir voru að anda ofan í hálsmálið á okkur. Það var flott að brotna ekki niður þegar þeir voru búnir að jafna leikinn. Við stóðum þetta af okkur og rifum okkur aftur upp, sýndur aftur það sem við vorum að sýna í fyrri hálfleiknum og það kláraði leikinn.“

Já þið létuð það ekki trufla ykkur þegar þeir jöfnuðu í 20:20.

„Nei. Þá fórum við bara í sjö á sex, svona til að sprengja þetta aðeins upp. Það opnaði fyrir okkur og gaf fimm eða sex mörk. Við gengum svo bara á lagið. Með góðri vörn og geggjaðri markvörslu þá kláruðum við þetta bara.“

Við getum nú ekki litið fram hjá þínu framlagi á lokasprettinum. Þú ert bara nítján ára og skorar tvö næstu mörk eftir að Afturelding jafnar í 20:20. Svo áttu tvær stoðsendingar í kjölfarið.

„Það varð bara einhver að taka af skarið. Ég varð bara fyrir valinu í þetta skiptið.“

Maður hefði haldið að eldri og reyndari menn hefðu séð um þennan þátt. Hafa þeir kannski ekki það sem til þarf?

„Ja, hver veit. Ég ákvað bara að fara á vörnina og það virkaði. Maður stendur bara og fellur með því sem maður gerir.“

Nú eruð þið komnir á blað. Mun þetta ekki hjálpa í næsta leik?

„Jú nú ættum við að fá aukakraft fyrir leikinn á móti Fram. Það er gaman að stela stigum gegn liðum í efri hlutanum eins og við gerðum í dag. Við verðum að hafa þetta með okkur í Fram-leikinn. Það er sannkallaður fjögurra stiga leikur“ sagði hetjan unga að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert