Hljóp beint til Robba

Perla Ruth fagnar marki með íslenska landsliðinu í Skopje.
Perla Ruth fagnar marki með íslenska landsliðinu í Skopje. Ljósmynd/Robert Spasovski

„Það var geggjað að koma inn á leikvöllinn í þá stemningu sem var í liðinu vegna þess að allir voru með sín hlutverk á hreinu,“ sagði Perla Ruth Albertsdóttir, landsliðskona í handknattleik, eftir 31 marks sigur Íslands gegn Aserbaídsjan í undankeppni HM í handbolta í Skopje í gær.

„Spilið var orðið svo gott hjá okkur þegar ég mætti inn á völlinn. Vörnin og sóknin var búin að smella. Eftir það var þetta bara vinna,“ sagði Perla sem var eðlilega hátt uppi eins og fleiri leikmenn íslenska liðsins. Hún sagði sér ekki hafa þótt verkefnið of stórt þótt e.t.v. hafi það hljómað ótrúlega að ætla sér að vinna með að minnsta kosti 27 marka mun. „Um leið og Axel sagði við okkur að þetta væri markmiðið, að vinna með þessum mun þá hafði ég trú á að það tækist. Það sama átti við aðra leikmenn liðsins. Við erum Íslendingar og við erum þeir einu sem getum gert eitthvað í þessa veruna,“ sagði Perla.

„Ég hljóp beint til Robba [Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ] og spurði hann hvort það væri alveg öruggt að við værum komnar áfram. Ég spurði hann hvort hann hefði farið yfir allar reglur og það væri á hreinu að við værum komnar í umspilið. Hann kinkaði kolli og þá trylltist ég bara af fögnuði,“ sagði Perla Ruth Albertsdóttir.

Sjá allt um ævintýralegan sigur Íslands gegn Aserbaídsjan í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert