Erlingur í sögubækur Hollendinga

Erlingur Richardsson.
Erlingur Richardsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson ritaði nafn sitt í sögubækurnar í hollenskum handbolta í dag. Hann stýrði hollenska liðinu til 25:21-sigurs á Lettlandi á heimavelli og tryggði liðið sér sæti í lokakeppni EM með sigrinum. 

Er í fyrsta skipti sem hollenskt karlalið verður með á lokamóti EM. Erlingur tók við hollenska liðinu í október 2017 og er það mikið afrek að koma liðinu í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Austurríki, Noregi og Svíþjóð í janúar á næsta ári. 

Hollenska liðið kom sterkt til leiks og var staðan 13:11 í hálfleik. Hollendingar hleyptu Lettum ekki of nálægt sér í seinni hálfleik og tryggðu sér að lokum góðan sigur.

Holland hafnaði í þriðja sæti riðilsins með sex stig og er eitt þeirra fjögurra liða sem eru með bestan árangur í þriðja sæti og fá þar með þátttökurétt á Evrópumótinu. Slóvenía endaði í efsta sæti með tíu stig og Lettland í öðru sæti með átta stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert