Grófum okkar eigin gröf

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna. mbl.is/Hari

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, var að vonum daufur í dálkinn eftir ósigur sinna manna gegn FH í Olís-deildinni í handbolta í Kaplakrika í kvöld.

Valsmenn lentu mest níu mörkum undir í fyrri hálfleik en náðu að minnka muninn niður í eitt mark fljótlega í seinni hálfleik. FH-ingar sigldu svo aftur fram úr og innbyrtu þriggja marka sigur.

„Ég hef svo sem engin svör við því hvað var í gangi hjá okkur í fyrri hálfleik. Það voru mikil vonbrigði hvernig við vorum lungann úr fyrri hálfleik. Við grófum þá okkar eigin gröf. Ég tek ekkert af FH-ingum. Þeir gerðu hlutina vel og markvörður þeirra varði virkilega vel. En margt sem við vorum að bjóða upp á var lélegt og því fór sem fór.

Ég tek það ekkert af strákunum og hrósa þeim fyrir þessa góðu endurkomu en svona á ekki að gerast. Við getum ekki leyft okkur að lenda níu mörkum undir í fyrri hálfleik. Vissulega fór orka í að vinna þennan mun upp en við þurfum að fara yfir hlutina. Við spiluðum ekki vel á móti Fram og sóknarleikurinn er að stríða okkur. Við erum nýbúnir að fá Magnús Óla inn og Róbert Aron er að glíma við ákveðin vandamál en við eigum samt að mæta betur til leiks heldur en við gerðum í kvöld,“ sagði Snorri Steinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert