„Þarf að vanda orðaval mitt betur“

Kristján Örn Kristjánsson, ÍBV.
Kristján Örn Kristjánsson, ÍBV. mbl.is/Sigfús

Kristján Örn Kristjánsson, leikmaður ÍBV í Olís-deildinni í handknattleik, hefur sent frá sér yfirlýsingu eftir að ummæli hans eftir leik ÍBV og Aftureldingar voru send til aganefndar. 

Aganefnd sá ekki ástæðu til að úrskurða Kristján í leikbann en af úrskurði hennar mátti ráða að nefndarmenn hafi einfaldlega ekki skilið hvað leikmaðurinn átti við. „Aganefnd hefur farið yfir umrædd ummæli og telur þau með öllu óskiljanleg bæði samkvæmt orðanna hljóðan og almennri málvenju,“ segir meðal annars í úrskurði aganefndar. 

Yfirlýsing Kristjáns Arnar er svohljóðandi: 

Ég, undirritaður, harma að orð þau sem ég lét falla í viðtölum eftir leik ÍBV og Aftureldingar, og kærð voru til aganefndar, hafi verið túlkuð á þann hátt að ég væri að vega að æru og starfsheiðri dómara leiksins. Það var alls ekki ætlun mín. 

Ég geri mér grein fyrir því að ég kom fram af virðingarleysi við handboltann og dómarastéttina, og þarf að vanda orðaval mitt betur þannig að ekki fari á milli mála hvað ég meina í viðtölum.

Með handboltakveðju,
Kristján Örn Kristjánsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert