Fer frá Þýskalandi til Sviss

Aðalsteinn Eyjólfsson á hliðarlínunni hjá Erlangen.
Aðalsteinn Eyjólfsson á hliðarlínunni hjá Erlangen. Erlangen

Handknattleiksþjálfarinn Aðalsteinn Eyjólfsson hefur ákveðið að söðla um og færa sig yfir til Sviss eftir tólf ár í þjálfun í Þýskalandi en Aðalsteinn hætti störfum hjá Erlangen í byrjun mánaðarins. 

Aðalsteinn mun í júní taka við svissneska liðinu Kadetten Schaffhausen og hefur gert tveggja ára samning við félagið. Aðalsteinn staðfesti þetta við mbl.is í dag. 

Aðalsteinn tekur við liði með sigurhefð en ellefu sinnum hefur það orðið svissneskur meistari og er sigursælasta liðið í Sviss á síðustu árum. Kadetten er svissneskur meistari síðan í fyrra og allir ellefu sigrar félagsins hafa komið á þessari öld. Er liðið það næstsigursælasta frá upphafi og komst auk þess í úrslit EHF-bikarsins árið 2010. 

Liðið lék í D-riðli Meistaradeildar Evrópu í vetur en náði ekki að komast í sextán liða úrslitin og beið m.a. lægri hlut gegn Íslendingaliðunum Kristianstad frá Svíþjóð og GOG í Danmörku en burstaði GOG með tólf mörkum á heimavelli og vann rússnesku meistarana Medvedi með níu mörkum.

Þess má geta að landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson lék með Kadetten á árunum 2009 - 2011. 

Aðal­steinn, sem er 42 ára gam­all, tók við liði Erlangen seint á ár­inu 2017 en hafði áður stýrt þýsku liðunum Hütten­berg, Eisenach og Kassel frá 2008. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert