Ná Valsmenn toppsætinu?

Valur og Fjölnir eigast við í kvöld.
Valur og Fjölnir eigast við í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Einn leikur er á dagskrá í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Valur fær Fjölni í heimsókn á Hlíðarenda klukkan 20:15. Takist Valsmönnum að vinna fara þeir upp fyrir FH og Hauka og upp í toppsætið. 

Leikurinn er sá síðasti í 18. umferð deildarinnar, en honum var seinkað vegna þátttöku Vals í Áskorendakeppni Evrópu. Valsmenn léku tvo leiki við Beykoz í Tyrklandi, höfðu betur og tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum. 

Flestir reikna með öruggum sigri Valsmanna, en þeir eru með 24 stig eftir 17 leiki. Síðasta tap Vals í deildinni kom 12. október. Síðan þá hefur liðið unnið ellefu og gert eitt jafntefli. 

Fjölnir er í botnsætinu með aðeins fimm stig. Liðið hefur tapað níu síðustu deildarleikjum sínum og tólf af síðustu þrettán. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert