Hannes á siglingu og Aron kominn í markið

Lið Bietigheim. Hannes Jón Jónsson er annar frá vinstri í …
Lið Bietigheim. Hannes Jón Jónsson er annar frá vinstri í miðröðinni. Ljósmynd/Bietigheim

Mikill skriður er á þýska handknattleiksliðinu Bietigheim undir stjórn Hannesar Jóns Jónssonar þessa dagana og með Aron Rafn Eðvarðsson í markinu í fyrsta skipti vann liðið góðan útisigur gegn Eisenach í gærkvöld, 26:23.

Aron kom til liðs við Hannes frá Hamburg í vikunni og varði níu skot í leiknum í gærkvöld, þar af eitt vítakast, og var með 28 prósent markvörslu.

Bietigheim féll úr efstu deild í fyrra en þá tók Hannes við liðinu þegar nokkrar vikur voru eftir af tímabilinu. Liðið fór hægt af stað í B-deildinni í haust en hefur klifrað upp töfluna jafnt og þétt og vann sinn fjórtánda sigur í 22 umferðum í gærkvöld.

Bietigheim er nú komið í þriðja sætið með 30 stig, á eftir Coburg sem er með 33 og Essen með 30 stig, en baráttan er hörð því Gummersbach og Hamm eru með 29 stig og N-Lübbecke 28 stig. Þrjú efstu liðin vinna sér sæti í 1. deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert