Viggó fór mikinn í naumum sigri

Viggó Kristjánsson skoraði fimm mörk fyrir Stuttgart.
Viggó Kristjánsson skoraði fimm mörk fyrir Stuttgart. AFP

Viggó Kristjánsson átti góðan leik fyrir Stuttgart þegar liðið vann eins marks útisigur gegn Bergischer í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag.

Leiknum lauk með 31:30-sigri Stuttgart en Viggó skoraði fimm mörk í leiknum og var næstmarkahæstur í liði Stuttgart.

Arnór Þór Gunnarsson var ekki í leikmannahóp Bergischer sem er með 35 stig í ellefta sæti deildarinnar en Stuttgart er í fjórtánda sætinu með 31 stig.

Þá tryggði Balingen sæti sitt í deildinni með 30:26-heimasigri gegn Hannover-Burgdorf en Oddur Gretarsson var ekki í hóp hjá Balingen sem er með 29 stig í fimmtánda sætinu, fimm stigum frá fallsæti þegar einni umferð er ólokið.

Ludwigshafen, sem er í sautjánda sætinu og fallsæti, er með 24 stig og getur ekki náð Balingen að stigum þrátt fyrir að eiga leik til góða á Balingen.

Flensburg endurheimti toppsæti deildarinnar með 27:26-útisigri gegn Erlangen en Alexander Petersson var ekki í leikmannahóp Flensubrg sem er með 66 stig í efsta sæti deildarinnar, stigi meira en Kiel, sem á leik til góða á Flensburg.

Þá töpuðu Guðmundur Þórður Guðmundsson og lærisveinar hans með þriggja marka mun gegn Füchse-Berlin á heimavelli, 32:25, en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað hjá Melsungen sem er með 40 stig í sjöunda sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert