Smit í herbúðum Vals

Úr leik aðalliðs Vals í haust.
Úr leik aðalliðs Vals í haust. mbl.is/Unnur Karen

Einn leikmaður karlaliðs Vals í handknattleik hefur greinst með kórónuveiruna. Af þeim sökum er sá leikmaður kominn í einangrun og allir aðrir leikmenn liðsins komnir í sóttkví.

Þetta herma öruggar heimildir mbl.is.

Þegar kemur að sóttkvínni er um að ræða alla leikmenn aðalliðs Vals og Vals U, ungmennaliðs félagsins sem leikur í næstefstu deild.

Fjöldi leikmanna Vals U voru á skýrslu aðalliðsins í síðasta deildarleik og sömuleiðis hefur fjöldi þeirra æft með aðalliðinu undanfarna daga.

Samgangur milli liðanna hefur því verið mikill að undanförnu og þess vegna þurfa allir leikmenn beggja liða að fara í sóttkví.

Leikjum beggja liða sem áttu að fara fram um helgina hefur verið frestað af þessum orsökum. Aðalliðið átti að heimsækja Fram á sunnudag og Valur U átti að heimsækja Kórdrengi á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert