Vörnin þeirra þvingar mann oft í eitthvað rugl

Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur í kvöld.
Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var bara geggjaður leikur, geggjaður fyrir áhorfendur og geggjað að fá að spila hann,“ sagði Benedikt Gunnar Óskarsson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 31:30-sigur liðsins á ÍBV í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handknattleik karla í kvöld.

Benedikt Gunnar lék vel fyrir Valsmenn þar sem hann skoraði sex mörk úr jafnmörgum skotum og var þannig markahæstur í leiknum, auk þess sem hann gaf fjórar stoðsendingar.

Leikurinn var afar jafn stærstan hluta hans. Fyrsta leik liðanna lauk með 11 marka sigri Vals og ÍBV sneri svo taflinu við í öðrum leiknum í blálokin eftir að Valsmenn höfðu leitt stærstan hluta hans. Hvers vegna var leikurinn í kvöld jafnari en síðustu tveir?

„Kannski bara það að leikmenn eru komnir í leik þrjú og eru að passa sig og svo eru bæði liðin góð,“ sagði hann.

Eftir frábæran kafla ÍBV seint í leiknum þar sem Eyjamenn komust í 23:27 tóku Valsmenn leikhlé og sneru taflinu við sér í vil í kjölfarið. Í þessum viðsnúningi Valsmanna skoraði Benedikt Gunnar þrjú marka sinna í leiknum. Hann sagði liðið hafa breytt litlu í leik sínum í kjölfar leikhlésins.

„Við breyttum eiginlega engu, við bara reyndum að spila áfram okkar leik og keyra áfram og minnka þessa tæknifeila sem við vorum að gera, og kannski aðeins að þétta í vörninni líka,“ útskýrði Benedikt Gunnar.

Eins og hann benti á voru tæknifeilarnir margir þar sem bæði lið töpuðu boltanum mun oftar en þau hefðu kosið.

„Já allt of mikið. Þetta er náttúrlega erfið vörn sem þeir eru í, hún þvingar mann oft í eitthvað rugl. En þetta er líka bara hausinn á okkur, við þurfum að halda aðeins betur í hann og gera betur,“

Fjórði leikur liðanna fer fram á laugardag í Vestmannaeyjum þar sem Valur getur með sigri varið Íslandsmeistaratitil sinn. Benedikt Gunnar sagði Valsmenn áfjáða í að klára dæmið þá.

„Já auðvitað, það er bara markmiðið okkar.“

mbl.is