Valur náði forystunni á ný eftir spennutrylli

Valsmaðurinn Arnór Snær Óskarsson í góðu færi í leiknum á …
Valsmaðurinn Arnór Snær Óskarsson í góðu færi í leiknum á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert

Valur er komið í 2:1 í úrslitaeinvígi sínu við ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla eftir nauman 31:30-sigur í sannkölluðum spennutrylli í Origo-höllinni í þriðja leik liðanna í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var mögnuð skemmtun. Gífurlegur hraði var í leiknum og afskaplega mikið skorað.

Var staðan orðin 11:9, Val í vil, þegar aðeins rétt rúmar 12 mínútur voru liðnar af leiknum.

Sóknarleikurinn var í aðalhlutverki en þó gripu markverðir liðanna vel inn í inn á milli, sér í lagi Björgvin Páll Gústavsson í marki Vals, sem varði sjö skot í hálfleiknum.

Annars voru leikmenn beggja liða að hitta vel að mestu leyti en þegar þau bæði spila þetta hraðan handbolta er óumflýjanlegt að einhverjir tæknifeilar geri vart við sig, enda töpuðu bæði lið boltanum umtalsvert í fyrri hálfleik.

Mest náði Valur fjögurra marka forystu í fyrri hálfleik, 9:5 og 10:6, en þrátt fyrir að lenda reglulega tveimur og þremur mörkum undir í kjölfarið voru Eyjamenn ekkert á því að gefast upp og tókst loks að jafna metin í 16:16 undir lok hálfleiksins, og var það í fyrsta skipti síðan í stöðunni 4:4 eldsnemma leiks.

Staðan í leikhléi var sömuleiðis jöfn, 17:17.

Síðari hálfleikurinn byrjaði allt öðru vísi og mun hægar en sá fyrri þar sem bæði lið áttu í stökustu vandræðum með að búa sér til almennileg skotfæri, auk þess sem þau bæði töpuðu ógrynni bolta.

Eftir tæplega 40 mínútna leik fór að hitna í kolunum. Fyrst fékk Stiven Tobar Valencia beint rautt spjald fyrir að fara harkalega í Dag Arnarsson.

Í kjölfarið fengu Eyjamenn þrjár tveggja mínútna brottvísanir með afar stuttu millibili, svo stuttu að um nokkurra sekúndna skeið léku gestirnir þremur færri.

Á þessum kafla náði Valur  tveggja marka forystu, 22:20, og 23:21.

Eyjamenn brugðust hins vegar stórkostlega við, skoruðu sex mörk í röð og komust þannig fjórum mörkum yfir, 23:27.

Sveiflunum í leiknum var síður en svo lokið enda tóku Valsmenn leikhlé í kjölfarið, skoruðu fjögur mörk í röð og jöfnuðu þannig metin í 27:27.

Þá voru aðeins fimm mínútur eftir af leiknum og því sannarlega allt í járnum það sem eftir lifði hans.

Að lokum reyndust Valsmenn hlutskarpari og unnu eins marks sigur. Eyjamenn fengu tækifæri til þess að jafna í blálokin en lokasóknin rann út í sandinn eftir að ruðningur var dæmdur á Elmar Erlingsson í liði ÍBV.

Leikur kvöldsins var heilt yfir mun jafnari en hinir tveir leikirnir hafa verið þar sem Valsmenn voru með undirtökin stærstan hluta þeirra beggja, enda unnu þeir fyrsta leikinn með 11 mörkum og leiddu langstærstan hluta annars leiksins í Vestmannaeyjum áður en mögnuð endurkoma ÍBV undir lok hans skilaði fræknum tveggja marka sigri Eyjamanna.

Því ætti sannarlega að vera von á góðu í fjórða leik liðanna í Vestmannaeyjum næstkomandi laugardag þar sem Valsmönnum gefst færi á að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á meðan Eyjamenn munu freista þess að knýja fram oddaleik.

Valur 31:30 ÍBV opna loka
60. mín. ÍBV tekur leikhlé 20 sekúndur eftir, Eyjamenn eiga eina lokasókn!
mbl.is