Besti árangur Íslands á HM U18

LAndsliðshópur U18 kvenna á HM 2022 skilupu besta árangri Íslands …
LAndsliðshópur U18 kvenna á HM 2022 skilupu besta árangri Íslands á mótinu hingað til. Ljósmynd/HSÍ

Ísland lenti í 8. sæti á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik, 18 ára og yngri, eftir svekkjandi tap í vítakastskeppni gegn Egyptalandi í dag. 

Ísland endar því mótið í áttunda sæti sem er besti árangur sem íslenskt kvennalandslið hefur náð á heimsmeistaramóti frá upphafi. Ísland kom inn á mótið sem gestur á vor og var skráð í fjórða neðsta flokk en endar í fyrsta flokki, áttunda sæti af 32.

Ísland var með þriggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 16:12 og var með yfirhöndina nánast allan leikinn þar til undir lokin. Egyptar komust yfir í stöðunni 30:29 en Elín Klara Þorkelsdóttir jafnaði síðan metin í 30:30. Þegar um 15 sekúndur voru eftir á klukkunni skoraði  Embla Steindórsdóttir og kom Íslandi yfir í stöðuna 31:30 en Egyptar svöruðu strax fyrir sig og leikurinn fór í vítakeppni. 

Lilja Ágústsdóttir, fyrirliði Íslands var fyrst upp og skoraði örugglega úr fyrsta vítakasti Íslands en Egyptaland skoraði sömuleiðis úr sínu. Önnur á punktinn var Embla Steindórsdóttir sem skoraði og aftur skoruðu Egyptar úr sínu víti.

Elín Klara Þorkelsdóttir tók svo þriðja víti Íslands en Cihad Wael Sayed, markmaður Egypta, varði frá henni á meðan þriðja víti Egypta fór inn. 

Varið var síðan vítakast sem Katrín Anna Ásmundsdóttir tók og Egyptar fögnuðu 7. sæti eftir 33:35 sigur í vítakeppni. 

Mörk leiksins skoruðu: Lilja Ágústsdóttir 12, Elín Klara Þorkelsdóttir 8, Embla Steindórsdóttir 5, Inga Dís Jóhannsdóttir 4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 2, Thelma Melsteð Björgvinsdóttir 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert