Hefðum þurft meiri gæði til að vinna

Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA.
Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, var vonsvikinn eftir 26:18-tap gegn Val á Hlíðarenda í Olís deild karla í handbolta í kvöld.

„Með betri leik og aðeins meiri skynsemi hefðum við getað verið miklu nær þessu. Þetta var ekkert fallegur handbolti í fyrri hálfleik en mér fannst mæta Völsurunum í baráttunni og það var erfitt fyrir bæði lið að skora. Við vissum að það þyrfti að mæta þeim af krafti.

Það eru þrjú eða fjögur brot sem ég er spenntur að sjá aftur, þegar það var farið í Einar Birgi, Skarphéðinn og í andlitið á Einari Rafni. Kannski er ekkert að þessu en mér fannst allavega ekkert verið að auðvelda okkur lífið sem var þó erfitt fyrir. Mér fannst þetta fast en kannski voru 2 mínútur bara rétt. Svo nýtum við náttúrlega yfirtöluna okkar mjög illa og það var partur af því sem gekk illa. 

Ég var svekktur að vera ekki með betri stöðu í hálfleik. Við þraukuðum þrátt fyrir að vera í brasi sóknarlega og staðan var 7:7, en svo skora þeir fjögur á okkur. Við hefðum þurft betri leik til að vinna, klárlega en varnarleikurinn var mjög góður.“

Vörn KA gekk mjög vel framanaf en það sést best á því að Valur skorar„bara“ 26 mörk, þar sem mörg þeirra komu undir lokin þegar leikurinn var svo gott sem búinn. Sóknarleikurinn hins vegar gekk bölvanlega og var sérstaklega mikið um tapaða bolta.

„Við ætluðum að hanga á boltanum og vera ekki að kasta honum frá okkur. Svo erum við að fara illa með dauðafæri úr hornum og af línu sem hjálpar ekki þegar sóknarleikurinn er erfiður. Við hefðum þurft betri frammistöðu heilt yfir sóknarlega og mögulega vorum við þjálfararnir bara ekki að hitta á réttu taktíkina. Þetta var ekki góður handboltaleikur, það var mikið barist og mér fannst við mæta þeim í því en við hefðum þurft meiri gæði til að vinna.“

KA er með þrjú stig eftir fjórar umferðir í deildinni. Jónatan segist þokkalega sáttur með byrjunina hjá sínum mönnum.

„Já, við erum búnir með Hauka og Val á útivelli, ÍBV heima og Ísafjörð. Við hefðum klárlega viljað vera með fleiri stig en ég sá eitthvað jákvætt í öllum leikjunum, í dag var það varnarlega. Ég kvíði ekkert framhaldinu en næsti leikur verður gífurlega erfiður, ÍR heima þar sem stefnan verður að komast á sigurbraut aftur.

mbl.is