Viktor fór þjáður af velli – halda niðri í sér andanum

Viktor Gísli Hallgrímsson fór meiddur af velli í gær.
Viktor Gísli Hallgrímsson fór meiddur af velli í gær. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, fór meiddur af velli þegar hann lék með Nantes gegn Sélestat í frönsku 1. deildinni í gær.

Viktor átti magnaðan leik í markinu og var t.a.m. með 56 prósenta markvörslu í fyrri hálfleik. Hann varð hins vegar að fara af velli á 41. mínútu vegna meiðsla í olnboga.

Viktor missti af nokkrum leikjum Nantes í upphafi leiktíðar vegna meiðsla í sama olnboga. Þá missti hann einnig af landsleikjum Íslands við Ísrael og Eistland í október.

Samkvæmt Ouest í Frakklandi hélt Viktor um andlitið þegar hann gekk af velli og faldi sig síðan á bak við handklæði á bekknum. Virtist hann nokkuð þjáður, en hann lék með umbúðir og spelku á olnboganum vegna meiðslanna sem hann varð fyrir fyrr á tímabilinu.

Í umfjöllun miðilsins segir að félagið haldi niðri sér andanum vegna meiðslanna og vonist til að þau séu ekki alvarleg. 

Íslenska landsliðið hefur leik á HM í Svíþjóð 12. janúar með leik gegn Portúgal. Suður-Kórea og Ungverjaland eru í sama riðli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert