Haukur aftur alvarlega meiddur?

Haukur Þrastarson sleit krossband í október 2020.
Haukur Þrastarson sleit krossband í október 2020. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Haukur Þrastarson meiddist á hné í leik Kielce og Pick Szeged í B-riðli Meistaradeildarinnar í handknattleik í Ungverjalandi í kvöld.

Haukur, sem er 21 árs gamall, meiddist undir lok fyrri hálfleiks eftir að hafa skorað tvö mörk í leiknum sem lauk með 31:28-sigri Kielce.

Leikmaðurinn hefur leikið afar vel fyrir Kielce í undanförnum leikjum liðsins en hann sleit fremra krossband og liðþófa í vinsta hné í október árið 2020 og var frá í rúmlega ár vegna meiðslanna. 

Talant Dujshebaev, þjálfari Kielce, átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum þegar Haukur haltraði af velli og þá mælti danski handknattleikssérfræðingurinn Rasmue Boysen með því á Twitter að fólk myndi ekki að horfa aftur á atvikið.

Haukur mun gangast undir frekari rannsóknir vegna meiðslanna á morgun en það yrði mikið áfall fyrir bæði leikmanninn og íslenska karlalandsliðið ef krossbandið reynist slitið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert