Lykilmaður Íslandsmeistaranna sleit krossband

Mariam Eradze í leik með Val á síðasta tímabili.
Mariam Eradze í leik með Val á síðasta tímabili. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Mariam Eradze, lykilmaður Íslandsmeistara Vals í handknattleik kvenna, varð fyrir því óláni að slíta krossbönd í hné í leik með liðinu á Ragnarsmótinu, æfingamóti sem fer fram á Selfossi um þessar mundir.

Mariam er 24 ára gömul og hefur leikið með Val undanfarin þrjú tímabil eftir að hafa áður leikið með Toulon í Frakklandi. Hún er alin upp hjá Fram.

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, sagði í samtali við Handbolta.is að því miður hafi skoðun leitt í ljós að Mariam hafi slitið krossband í leik Vals gegn Stjörnunni á Ragnarsmótinu, þurfi af þeim sökum að gangast undir skurðaðgerð og missi af öllu næsta tímabili.

Mariam hefur verið viðloðandi íslenska A-landsliðið undanfarin ár og þýða meiðslin að hún á sömuleiðis engan möguleika á því að taka þátt á HM 2023 í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, sem hefst í nóvember næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert