Gamla ljósmyndin: Kominn heim

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Hafnfirðingurinn Aron Pálmarsson er kominn heim í FH eftir sérlega glæsilegan feril í atvinnumennsku í Þýskalandi, Ungverjalandi, á Spáni og í Danmörku. Tveir leikmenn sem unnu til verðlauna með íslenska landsliðinu snéru heim úr atvinnumenskunni að þessu sinni en Alexander Petersson gekk í raðir Vals. 

Aron lék á dögunum í fyrsta skipti með FH á Íslandsmótinu frá því á keppnistímabilinu 2008-2009 en Alfreð Gíslason fékk Aron til Kiel þegar Aron var ungur að árum eins og íþróttaunnendur þekkja. 

Ef til vill hafa einhverjir þó gleymt því að FH féll niður um deild og Aron fékk tækifæri í næstefstu deild 2007-2008 ásamt fleiri mönnum sem áttu eftir að gera það gott. Nægir þar að nefna Ólafana tvo, Guðmundsson og Gústafsson. 

Þegar FH lék í efstu deild að nýju haustið 2008 lék Aron strax að sér kveða. Fastar en gengur og gerist hjá leikmönnum á menntaskólaaldri. Raðaði hann inn mörkum og stoppaði því stutt við í deildinni. 

Á meðfylgjandi mynd reyna þrír leikmenn HK að stöðva Aron í leik FH og HK á keppnistímabilinu 2008 - 2009 eða fyrir cirka fimmtán árum.

Lengst til hægr er Einar Ingi Hrafnsson sem lagði skóna á hilluna í sumar eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Aftureldingu. Fyrir miðju er Sverre Jakobsson sem átti eftir að vinna til bronsverðlauna með Aroni á EM 2010. Lengst til vinstri er Sigurgeir Árni Ægisson sem í dag starfar hjá FH. 

Myndina tók Kjartan Þorbjörnsson, betur þekktur sem Golli, sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is um langa hríð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert