Mögnuð frammistaða Íslendinga

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu vann enn eitt glæsilega afrekið á knattspyrnuvellinum í Spartak vellinum í Moskvu í dag þegar það gerði 1:1 jafntefli á móti tvöföldum heimsmeisturum Argentínu í sínum fyrsta leik á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

Sergio Agÿuro framherji Englandsmeistara Manchester City kom Argentínumönnum í 1:0 með þrumuskoti úr teignum en fjórum mínútum síðar jafnaði Alfreð Finnbogason metin.

Hann hirti upp frákast eftir að Willy Caballaro hafði varið skot frá Gylfa Þór Sigurðssyni og setti boltann í netið af stuttu færi. Áður hafði Birkir Bjarnason fengið fínt færi en skaut framhjá og í byrjun leiks skaut Alfreð yfir Argentínumarkið úr þokkalegu færi.

Lionel Messi fékk gullið tækifæri til að skora þegar Argentínumenn fengu vítaspyrnu um miðjan seinni hálfleik.  Hörður Björgvin var brotlegur innan teigs en Hannes Þór Halldórsson gerði sér lítið fyrir og varði glæsilega frá besta knattspyrnumanni heims.

Argentínumenn sóttu nokkuð stíft á lokakaflanum en náðu ekki að komast í gegnum magnaðan varnarmúr íslenska liðsins sem fagnaði ákaft þegar pólski dómarinn flautaði til leiksloka.

Frammistaða íslenska liðsins var hreint frábært. Það lék af mikilli skynsemi og festu allan tímann. Varnarleikurinn út um allan völl var stórskotlegur og íslensku leikmönnunum, ekki síst fyrirliðanum Aroni Einari og Emil Hallfreðssyni tókst að halda Messi í skefjum allan tímann. Íslendingar verðskulduðu svo sannarlega þetta stig og þessi byrjun er sú sama á Evrópumótinu í Frakklandi fyrir tveimur árum en þá gerðu Íslendingar og Portúgalar 1:1 jafntefli í fyrsta leik.

Ísland mætir Nígeríu í Volgograd á föstudaginn og leikur svo við Króatíu þann 26. júní.

Argentína 1:1 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið +5 Frábær frammistaða Íslendinga.
mbl.is

Bloggað um fréttina