Verður Deschamps sá þriðji í röðinni?

Didier Deschamps.
Didier Deschamps. AFP

Didier Deschamps landsliðsþjálfari Frakka í knattspyrnu getur komist í sögubækur heimsmeistarakeppninnar takist Frökkum að vinna Króata í úrslitaleiknum um heimsmeistaratitilinn á Luzhniki leikvanginum í Moskvu á sunnudaginn.

Fari svo að Frakkar beri sigur úr býtum verður Deschamps þriðji maðurinn í sögu HM til að verða heimsmeistari bæði sem leikmaður og þjálfari. Deschamps var fyrirliði Frakka þegar þeir hömpuðu titlinum á heimavelli fyrir 20 árum.

Hinir tveir eru Þjóverjinn Franz Beckenbauer og Brasilíumaðurinn Mario Zagallo. Beckenbauer var fyrirliði V-Þjóðverja þegar þeir urðu heimsmeistarar á heimavelli 1974 og hann stýrði svo Þjóðverjum til sigurs á HM 1990 þar sem þýska liðið tapaði ekki leik og skoraði 15 mörk.

Zagallo varð tvívegis heimsmeistari með Brasilíumönnum sem leikmaður, 1958 og 1962. Hann þjálfaði svo brasilíska landsliðið þegar það vann heimsmeistaratitilinn í Mexíkó 1970.

mbl.is