Ég er alls ekki hættur

Gareth Bale þurfti að fylgjast með seinni hálfleiknum gegn Englandi …
Gareth Bale þurfti að fylgjast með seinni hálfleiknum gegn Englandi af varamannabekknum vegna meiðsla. AFP/Nicolas Tucat

Gareth Bale, fyrirliði velska landsliðsins í knattspyrnu, kvaðst alls ekki vera búinn að segja skilið við landsliðsferilinn þó Wales hafi í kvöld fallið út úr heimsmeistarakeppninni í Katar eftir 0:3-ósigur gegn Englendingum.

Bale þurfti að fara meiddur af velli að loknum fyrri hálfleik en sagði aðspurður eftir leik að þetta hefði ekki verið síðasti landsleikurinn.

„Það eru vonbrigði að falla úr keppni. En við munum allir ganga hnarreistir út úr búningsklefanum og stoltir hver af öðrum. Ég mun halda áfram eins lengi og get, og eins lengi og það stendur mér til boða. Næsta undankeppni byrjar í mars og þá höldum við áfram,“ sagði Bale við fréttamenn.

Bale jafnaði landsleikjamet Wales í fyrsta leik keppninnar og sló það í öðrum leik og er nú kominn með 111 landsleiki. Hann skoraði eina mark Wales á HM og bætti með því markamet sitt fyrir landsliðið en þar hefur hann nú skorað 41 mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert