Enska liðið geti barist um að vinna mótið

Mauricio Pochettino
Mauricio Pochettino AFP/Clement Mahoudeau

Mauricio Pochettino, fyrrverandi knattspyrnustjóri París SG, Tottenham og Southampton, er opinn fyrir því að þjálfa landslið í framtíðinni, en hann hefur m.a. verið orðaður við landsliðsþjálfarastöðuna hjá Englandi.

Hinn fimmtugi Pochettino hefur verið án starfs síðan hann var rekinn frá Parísarfélaginu í júlí síðastliðinn. Hann var orðaður við stjórastarfið hjá Aston Villa, áður en Unai Emery var ráðinn stjóri enska liðsins.

„Ég hafði ekki hugsað mér að verða landsliðsþjálfari, en það breyttist nýlega. Hví ekki? Ég er með opinn hug,“ sagði Pochettino við Sky Sports á HM í Katar, þar sem hann fylgist vel með mótinu.

„Ég er enn ungur og hungraður. Að vera landsliðsþjálfari er öðruvísi starf, kannski verður það ekki mitt næsta starf en einhvern tímann í framtíðinni. Ég er opinn fyrir því að þjálfa annað landslið en Argentínu,“ sagði Argentínumaðurinn.

Hann spáir því að enska liðið fari langt á HM í ár, en England tryggði sér leik gegn Senegal í 16-liða úrslitum með sannfærandi sigri á Wales í gær.

„Frakkland og önnur sterk lið gætu lent í vandræðum ef þau mæta Englandi. Enska liðið býr yfir miklum hæfileikum og gæðum. Ég hef mikla trú á að enska liðið geti barist um að vinna mótið. Southgate er að gera magnaða hluti með liðið og á hrós skilið,“ sagði sá argentínski.  

mbl.is