Segist vera heill og vonast til þess að komast á blað

Harry Kane.
Harry Kane. AFP/Paul Ellis

Harry Kane, fyrirliði enska karlalandsliðsins í knattspyrnu sat fyrir svörum á blaðamannafundi ásamt Gareth Southgate þjálfara, fyrir leik liðsins gegn Senegal í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins annað kvöld.

„Fóturinn minn er í lagi. Engin vandamál og þetta hefur skánað með hverjum deginum sem líður. Mér finnst ég hafa verið að spila að spila vel en ég verð alltaf dæmdur af markaskorun. Ég er rólegur að eðlisfari og geri alltaf mitt besta fyrir liðið. Vonandi kemst ég á blað á morgun.“

Southgate talaði einnig um á fundinum að senegalska liðið væri sýnd veiði en ekki gefin og ítrekaði að enska liðið væri að mæta hörku andstæðingi. Þá hrósaði hann Aliou Cisse, kollega sínum hjá Senegal fyrir gott starf.

„Þeir eru skipulagðir og eru með frábæra leikmenn í liðinu, við gerum okkur fulla grein fyrir stærð verkefnisins sem bíður okkar. Cisse hefur gert frábæra hluti, þeir voru óheppnir að komast ekki upp úr riðlinum í Rússlandi 2018 en eru verðskuldað komnir í 16-liða úrslitin núna.“

Leikur Englands og Senegal fer fram annað kvöld klukkan 19.

Gareth Southgate.
Gareth Southgate. AFP/Javier Soriano
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert