Sterling er farinn heim til Bretlands

Sterling í leik Englands og Bandaríkjanna á dögunum.
Sterling í leik Englands og Bandaríkjanna á dögunum. AFP/Kirill Kudryavtsev

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, staðfesti eftir sigur liðsins á Senegal í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Katar í kvöld að Raheem Sterling, kantmaður liðsins, sé farinn heim til Bretlands af persónulegum ástæðum.

Greint hefur verið frá því að vopnaðir innbrotsþjófar hafi brotist inn á heimili hans í Lundúnum á meðan fjölskylda hans var heima.

Sterling var ekki í leikmannahópi Englands í dag vegna málsins en Southgate greindi frá því eftir leik að hann væri farinn heim til Bretlands. Fram kom að það sé ekki vitað eins og er hvort hann muni snúa aftur til Katar eða ekki.

„Þetta eru aðstæður sem hann þarf tíma til að glíma við. Ég vil ekki setja neina pressu á hann. Stundum er fótboltinn ekki það mikilvægasta í lífi okkar og fjölskyldan á að vera í fyrsta sæti.“

Sterling er því annar leikmaðurinn í enska hópnum sem þarf að fara heim af persónulegum ástæðum en áður hafði varnarmaðurinn Ben White neyðst til að gera slíkt hið sama.

mbl.is