Fjölnir minnkaði forskot meistaranna

Fjölnir hafði betur á svellinu í kvöld.
Fjölnir hafði betur á svellinu í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölnir vann fjörugan markaleik við SR í Hertz-deild karla í Egilshöll í kvöld, 9:4. Með sigrinum minnkaði Fjölnir forskot SA á toppnum niður í tólf stig. 

Sex mörk voru skoruð strax í fyrstu lotunni. Michal Stoklosa skoraði tvö fyrir Fjölni og þeir Ólafur Björnsson og Elvar Ólafsson sitt markið hvor. Bjarki Jóhannesson og Styrmir Maack skoruðu fyrir SR í lotunni og var staðan 4:2 að henni lokinni. 

Fjölnir jók muninn í þrjú mörk í annarri lotunni. Kristján Kristinsson skoraði tvö mörk fyrir Fjölnismenn en Jón Óskarsson lagaði stöðuna fyrir SR og var staðan fyrir þriðju og síðustu lotuna því 6:3. 

Aftur jók Fjölnir muninn í þriðju lotu. Elvar Ólafsson, Hilmar Sverrisson og Kristján Kristinsson komust allir á blað á meðan mark Kristjáns Gunnlaugssonar dugði skammt fyrir SR. 

mbl.is