Þetta er stórt fyrir okkur

Benedikt Blöndal og félagar hafa slegið út þrjú úrvalsdeildarlið og …
Benedikt Blöndal og félagar hafa slegið út þrjú úrvalsdeildarlið og leika því í Laugardalshöllinni. mbl.is/Sindri

„Maður er búinn að vera spenntur fyrir þessu í dágóðan tíma,“ segir Benedikt Blöndal, fyrirliði Vals, en liðið mætir meisturum KR í Laugardalshöll í dag kl. 17, í undanúrslitum Maltbikarsins í körfubolta.

Sú nýbreytni er í keppninni í ár að undanúrslitaleikirnir fara fram í Laugardalshöll, en kl. 20 mætast þar Þór Þorlákshöfn og Grindavík. Valur er eina 1. deildarliðið í undanúrslitunum, og einsdæmi er að lið úr 1. deild slái út þrjú úrvalsdeildarlið í bikarkeppninni eins og Valsmenn hafa nú gert. Þeir unnu Hauka í síðustu umferð, eftir að hafa slegið út Skallagrím og Snæfell.

„Það hafa hins vegar verið margir deildarleikir síðan dregið var til undanúrslita og maður reynir bara að hugsa um einn leik í einu. Okkur hefur gengið vel, sérstaklega síðan um miðjan desember, ekki bara í bikarnum heldur líka í deildinni þar sem við höfum núna unnið sjö leiki í röð,“ segir Benedikt.

„Maður finnur alveg á öllum að menn eru spenntir fyrir þessu. Þetta er stórt fyrir okkur, að fá svona risaleik í Höllinni, og mjög gaman að vera að fara að spila þarna,“ segir Benedikt. „Maður tekur alveg eftir því að eftir því sem við komumst lengra í bikarkeppninni þá eru fleiri og fleiri sem mæta á leikina. Það er oft þannig að þegar vel gengur þá er mikið skemmtilegra að mæta á völlinn. Ég á von á því að það verði fjölmennt í Höllina á svona Reykjavíkurslag, þó að það sé langt síðan að það var svona mikilvægur leikur í körfunni hjá okkur körlunum,“ segir Benedikt, en 30 ár eru síðan Valur lék síðast bikarúrslitaleik í körfubolta karla.

Fróðlegt að sjá hvernig við stöndum gegn besta liði landsins

Andstæðingur Vals í dag, KR, er ríkjandi bikarmeistari sem og Íslandsmeistari, með besta körfuboltamann Íslands frá upphafi í sínum röðum, sjálfan Jón Arnór Stefánsson:

„Þeir eru náttúrulega með firnasterkt lið á pappírunum. Við vitum alveg að þeir eru þrefaldir Íslandsmeistarar og á toppnum í úrvalsdeildinni. Það verður bara mjög fróðlegt að sjá hvernig við stöndum gagnvart besta liði landsins. Við munum leggja okkur alla fram og skilja allt sem við eigum eftir á vellinum. Við höfum verið á mikilli siglingu og spilað vel og maður veit aldrei hvað gerist í einum stökum leik,“ segir Benedikt og bætir við að Valsmenn séu orðnir vanir því að vera álitnir „litla liðið“ í bikarnum:

„Við höfum verið lægra skrifaða liðið í öllum leikjunum í keppninni hingað til. Þá er meiri pressa á hinum liðunum og við getum bara einbeitt okkur að því að spila eins vel og við getum. Aðalmarkmið okkar í vetur er að vinna okkur aftur inn sæti í úrvalsdeildinni og við vissum að við ættum góðan möguleika á því. Við litum svo sjálfir á að við værum með lið sem ætti heima þar. Auðvitað bjóst maður kannski ekki við því fyrir fram að við næðum að slá út þrjú úrvalsdeildarlið í bikarnum en ég held að við höfum alltaf átt von á því að við gætum vel strítt þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert