Allt öðruvísi í aðalhlutverki

Erna Hákonardóttir og liðsfélagar hennar fögnuðu innilega þegar bikarmeistaratitillinn var …
Erna Hákonardóttir og liðsfélagar hennar fögnuðu innilega þegar bikarmeistaratitillinn var í höfn. mbl.is/Golli

„Mér líður bara helvíti vel! Það er alltaf gaman að vinna bikar,“ sagði Erna Hákonardóttir, fyrirliði Keflavíkur, eftir að liðið varð í dag bikarmeistari í körfubolta með sigri á Skallagrími í æsispennandi leik í Laugardalshöll.

Erna hafði áður orðið bikarmeistari með Njarðvík, undir stjórn Sverris Þórs Sverrissonar líkt og nú, en fagnaði nú titlinum með sínu uppeldisfélagi.

„Síðast var það þannig að maður fékk lítið að spila en núna var maður í aðalhlutverki og það er allt öðruvísi,“ sagði Erna sem var öryggið uppmálað við þriggja stiga línuna og setti niður fjóra þrista í leiknum.

„Við ætluðum að mæta hérna og gera þetta strax að okkar leik og við sannarlega gerðum það,“ sagði Erna. „Ég reyndi bara að setja skotin mín ofan í, þau voru ekki að detta í Haukaleiknum [í undanúrslitum] svo ég vildi stíga upp núna og það gekk vel,“ sagði Erna.

„Við vissum að þær myndu koma með áhlaup og að þetta gæti orðið þannig að liðin myndu skiptast á forystunni, en þetta endaði okkar megin í dag. Þetta var ekkert óþægilegt hérna í lokin, ég hef trú á mínu liði og við tókum þetta,“ sagði Erna brosandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert