Eigum ótrúlega varnarmenn í Emelíu og Ariönu

Ariana Moorer fagnar með hinum ungu liðsfélögum sínum eftir að …
Ariana Moorer fagnar með hinum ungu liðsfélögum sínum eftir að Keflavík varð bikarmeistari í dag. mbl.is/Golli

„Þetta var ógeðslega gaman. Ég var svolítið stressuð fyrst, en svo var þetta bara geðveikt,“ sagði hin 16 ára gamla Birna Valgerður Benónýsdóttir sem varð í dag bikarmeistari með Keflavík þegar liðið vann Skallagrím í úrslitaleik í Laugardalshöllinni.

Keflavíkurkonum virtist líða afar vel frá fyrstu mínútu í Höllinni og Birna tók undir það: „Okkur gekk vel að gera það sem við lögðum upp með. Ég var orðin smástressuð í lokin, en hafði samt alltaf góða tilfinningu fyrir þessu. Ég hafði aldrei á tilfinningunni að við værum að fara að tapa,“ sagði Birna sem skoraði 11 stig. Hún segir lykilinn að sigrinum hafa falist í góðri vörn Keflavíkur og hröðum leik liðsins:

Birna Valgerður Benónýsdóttir er hér fyrir miðju, í miðjum fagnaðarlátum …
Birna Valgerður Benónýsdóttir er hér fyrir miðju, í miðjum fagnaðarlátum Keflavíkur eftir að bikarmeistaratitillinn var í höfn. mbl.is/Golli

„Það var það sem hélt okkur fyrir framan þær allan leikinn, að við erum hraðari en þær. Mér fannst við ná að nýta það í þessum leik.“ Skallagrímur fékk þó 2-3 sóknir í lok leiksins til að jafna metin, en náði ekki að finna sér nægilega gott færi:

„Við erum náttúrulega með ótrúlega varnarmenn í Emelíu og Ariönu. Þær stoppuðu þær bara algjörlega. Þær voru aldrei að fara að tapa þessu,“ sagði Birna.

Óbilandi trú á þeim, sama hversu gamlar þær eru

Ariana Moorer skoraði 17 stig í fyrsta leikhluta fyrir Keflavík en var svo dugleg að mata liðsfélaga sína eftir það. Hún skoraði alls 26 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 15 fráköst, auk þess að spila góða vörn gegn Tavelyn Tillman.

„Við ætluðum að vera eins yfirvegaðar og við gætum og láta það ekki á okkur fá þó að þær nálguðust okkur. Við byrjuðum afar vel en kólnuðum svo aðeins. Liðin skiptust á sprettum en þannig er körfuboltinn bara,“ sagði Moorer.

„Ég er með svo frábæra liðsfélaga og hef óbilandi trú á þeim, alveg sama hversu gamlar þær eru. Það gerir okkur að svo góðu liði. Þær spiluðu allar nákvæmlega eins og ég bjóst við,“ sagði Moorer, sem náði að halda aftur af Tillman þegar mest lá við í blálokin:

„Tillman er svo góð og snjöll í að komast að körfunni, þannig að ég fékk ansi stórt verkefni í dag,“ sagði Moorer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert